Lokaverkefni Meistaraskóla: Sjálfvirkur Frostvari fyrir Orlofshús

Ég hef undanfarið stundað Meistaranám í Rafeindavirkjun og Rafvirkjun. Þetta er nám sem veitir réttindi til að kalla sig meistara í sinni iðn. Námið er á vegum Tækniskólans og er 4 annir í kvöldskóla. En þar sem ég hef sveinspróf bæði í rafeindavirkjun og rafvirkjun mun ég geta kallað mig meistara í báðum greinum og starfað sem slíkur að námi loknu.

Markmið námsins er að veita þeim sem lokið hafa sveins­prófi fræðslu og þjálfun til að stjórna verkum, kenna nýliðum fagleg vinnu­brögð, örygg­is­reglur og iðnfræði. Eftir nám getur meistari ráðið til sín sveina í grein­inni og rekið eigið fyr­ir­tæki.

Af vefsíðu Tækniskólans

Það er gaman frá því að segja að mér tókst afar vel til með lokaverkefni mitt og fékk fullkomna 10 í einkunn og einróma lof kennara jafnt sem nemenda sem fengu áttu að meta verkefnið.

Þitt verkefni er í sérflokki, algjörlega til fyrirmyndar. Ég vildi gjarnan nota það sem sýnidæmi til að setja ný viðmið.  Takk fyrir gott verkefni.

Umsögn kennara

Styrkleikar
Mjög gott og vel uppsett verkefni og kynningin maður, meistaraverk!!!!
Veikleikar
Ekki til

Umsögn eins nemanda

Um verkefnið:

Verkefnið er unnið upp úr hugmynd sem varð til í hópavinnu í einum af fögum á lokaönn námsins sem kallast ‘Vöruþróun’. En þar átti hópurinn að koma með hugmynd að einhverri vöru eða þjónustu og þróa hana áfram. Fyrst var hugmyndin að koma með vöru sem vaktar betur eða lætur vita þegar fer að leka vatni í orlofshúsum, en fljótlega þróaðist það út í vangaveltur um hvernig mætti koma í veg fyrir slík tjón alfarið. Þá með því að nota segulstýrða krana og sjálfvirkni sem mælir hitastig eða þrýsting í lögnum. Mitt lokaverkefni fer nánar inn í útfærslu á þessari lausn hvað varðar rafeindaþáttinn. Ásamt því að skilgreina vandann nokkuð rækilega.


Hér má lesa ritgerðina: https://drive.google.com/open?id=1mQMkTeNAipkdmh1nNx5hIHg0mZdLlWu7


Hér er glærukynningin sem ég útbjó á pdf: https://drive.google.com/open?id=17KvD7oQwTmA9U71JdPR8pBC7WnxW-mSH

Hér er svo kynning mín á verkefninu út frá glærunum í tali og myndum: 

Vona að þetta verði einhverjum innblástur eða til gagns. Þess vegna birti ég þetta hér. Ég er vitanlega alveg til í að ræða við samstarfsaðila um að þróa þessa hugmynd áfram til að koma á markað. Áhugasamir geta sett sig í samband við mig. En það kom mér á óvart hversu mikill kostnaður fellur til ár hvert vegna frostsprunginna vatnslagna. Þetta er verulegt vandamál sem væri þess virði að leysa.

Klaustur-fóbía

The_Drunkard's_Progress_-_Color

Mig dreymdi í nótt að nokkrir forystumenn Miðflokksins og í raun stjórn flokksins eins og hún leggur sig hafi verið saman á bar með dólgslæti sem hefðu fengið jafnvel Sverri Stormsker til að roðna. Síðan vaknaði ég aldrei upp af þessari martröð. Hvar sem ég kem er verið að tala um þetta. Samfélagsmiðlar loga og það er fátt annað í fréttum fjölmiðla.

Það er gleðilegt þó að enginn sem var talað illa um í þessari ólukkulegu samkomu virðist hafa tekið þetta sérlega nærri sér. Það hefði ég heldur ekki gert í þeirra sporum. Ég ætla ekki að fjalla um hérna hvers vegna ummælin sem féllu séu röng, enda hef ég engu við að bæta allt sem þegar er komið fram í þeim efnum. En ég er nú samt bæði reiður og sár yfir þessu af mörgum ástæðum. Þingmenn eiga að vera öðrum borgurum fyrirmynd. Þeir eiga að vera flekklausir. Þeir sem setja lögin í landinu hljóta að bera ríkari skyldur þegar kemur að siðferði og framkomu. Ofdrykkja og slúður er eitt það síðasta sem kjörnir fulltrúar eða embættismenn ættu að láta grípa sig við.

Hér er eins og met hafi verið slegið í dónatali. Í það minnsta miðað við það sem ég hef nokkru sinni heyrt. Ég hugsa að ég hefði enda aldrei orðið vitni að svona samskiptum í seinni tíð, þó ég telji næsta víst að það þurfi ekki að leita lengi til að verða vitni að öðru eins. Ég hef enga þolinmæði fyrir fyllerísrausi og læt mig hverfa úr samkvæmum tímanlega þegar ég sé að það stefnir í slíkt. Þetta er hlið á fólki sem ég kæri mig sjaldnast um að kynnast. Ég hef enda verið bindindismaður síðan 2005 og stunda sjaldan samsæti þar sem áfengi er haft um hönd. Öll sú menning sem tíðkast í kringum ofdrykkju er orðin svo fjarlæg mér að þessi hegðun þingmannana er þeim mun meira sjokk fyrir mér.

Um starfið í Miðflokknum fram að þessu

Nú verð ég að taka fram að ég þekki þetta ágæta fólk sem sat á Klausturbarnum ekki neitt. Þó við séum flest saman í flokki þá hef ég lítil samskipti átt við þetta fólk þar sem ég hef fyrst og fremst starfað með frambjóðendum í Reykjavík og Miðflokksfélagi Reykjavíkur. Þannig að ég get ekki einu sinni sagt að ég þekki þetta fólk af góðu einu þann part dagsins sem fólk er vanalega edrú. Sumir virðast halda að vegna þess að ég sé í Miðflokknum hljóti ég að vera í stöðugum samskiptum við Sigmund Davíð. En raunveruleikinn er sá að formaður flokksins hefur lítið sem ekki neitt með starf okkar í Reykjavík að gera og sjálfsagt er það eins með önnur kjördæmafélög. Líklega hefur hann bara nóg annað að gera í sínum störfum, þó hann láti stundum sjá sig við hátíðleg tilefni.

Fólk á vinstri væng stjórnmála virðist haldið þeirri ranghugmynd að Sigmundur Davíð sé eins og einhver kóngur í þessum flokki. Þau orð hafa verið látin falla í umræðum undanfarna daga að Miðflokkurinn sé aðeins sértrúarsöfnuður í kringum einn mann. Þetta þykir mér afar óréttlátt í garð allra þeirra sem ég hef starfað með í Miðflokknum. Við unnum öfluga málefnavinnu með stórum hóp frambjóðenda fyrir sveitastjórnarkosningarnar. Sigmundur Davíð eða stjórn flokksins kom þar hvergi nærri né voru þau spurð álits á hvernig við höguðum okkar kosningabaráttu. Þeir sem voru á framboðslistanum voru þar með algjörlega frjálsar hendur að gera hvað sem þeim sýndist og koma með hvaða lausnir sem þeim datt í hug á borgarmálum. Ég geri ráð fyrir að í hverju kjördæmi hafi þetta verið með sama hætti.

Miðflokkurinn er fjöldahreyfing og mældist nýlega þriðji stærsti flokkurinn í skoðanakönnun. Það er ekki réttlátt að tala niður til okkar almennra flokksmanna með þeim hætti sem nú er gert að formaður flokksins sé einhverskonar andlegur leiðtogi. Ég hef veitt því athygli að þetta viðhorf um meinta leiðtogadýrkun virðist helst bundið við fólk á vinstri vængnum. Sem er þá kannski vant því að sitja í einhverskonar leiðtogaræði og leiðtogadýrkun í sínum flokkum og býst við að svo sé hjá öðrum líka. Ég get ekki skilið þetta viðhorf öðruvísi. Enda er mönnum tamt að dæma aðra út frá eigin veruleika.

Engin persóna er stærri en flokkurinn

Mér þykir því afar leitt að fólk sem á að teljast leiðtogar okkar hafi orðið okkur öllum til skammar. Ekki aðeins sjálfum sér til skammar og valdið særindum með ummælum sínum. Heldur hefur þetta mál kastað rýrð á allt það góða starf sem óbreyttir flokksmenn og aðrir frambjóðendur hafa unnið. Ég er eiginlega reiðastur fyrir hönd þeirra manna og kvenna sem hafa gefið af óeigingirni stóran hluta af tíma sínum. Fólkið sem starfaði á gólfinu. Hellti upp á kaffið og tók á móti fólki á kosningaskrifstofum vikum saman. Þetta fólk varð mér gríðarlegur innblástur í kosningabaráttunni. Að sjá slíka hugsjón hjá fólki er ótrúlega fallegt. Þetta fólk bað ekki um neitt í staðinn fyrir sín störf. Það gaf ekki aðeins vinnu sína, heldur borgaði jafnvel með sér í sumum tilfellum. Þessar hetjur trúðu því af einlægni að þau væru að hjálpa samfélaginu til betri vegar. Ég samsama mig mikið með þessu fólki. Ég held að mörg þeirra séu í sárum í dag. Ekki aðeins er það áfall fyrir fólk að sjá stjórn flokksins verða sér til skammar. Heldur er annað áfall og kannski sínu verra að sjá hvernig er ómaklega vegið að hinum almenna flokksmanni í uppgjöri við þetta mál. Engin maður í neinum flokki eða hópi fólks er mikilvægari en heildin. Hvorki staða þeirra, ris þeirra, né fall.

Ekkert veganesti er verra en ofdrykkja öls

Nú hafa sumir Klausturdrengjanna komið fram og lýst því að þeir muni hreinlega illa eftir umræddu kvöldi. Þeir kenna áfenginu um hegðunina. Það er skýring sem er trúverðug. En sem afsökun er aðeins hægt að nota hana einu sinni. Því ef menn verða uppvísir af því að ráða ekki við drykkju sína, þá er það ábyrgð viðkomandi að taka á drykkjuvandanum. Mín tilfinning og orðið á götunni er að Klausturdrengir hafi ekki verið að hittast í fyrsta sinn á þessum stað og í sömu erindagjörðum. Ljóst er að dómgreindarbresturinn varð því löngu áður en þetta atvik kom upp sem náðist á myndband.

Bakkus getur verið mörgum erfiður förunautur í lífinu. Því miður þurfa margir að gera stóra skandala áður en þeir taka sig taki. Það má þó hugga sig við það í tilfelli þessara ólukkulegu félaga að það dó enginn. En traust til þeirra sem þingmanna er algjörlega horfið. Enda tókst þeim að tala niður til nærri allra minnihlutahópa sem til eru í þessari einu samsetu. Það er vandséð að traust til þessara manna til að setja almenningi lög muni koma til baka í bráð.

Hver krísa er tækifæri

En ég finn til með þessu fólki. Ég er ekki illgjarn maður að eðlisfari. Ég get vart ímyndað mér þá sálarkrísu sem þeir eru að fara í gegnum meðan ég skrifa þessi orð á tölvuna mína. Þetta er bara mannlegur harmleikur. Ég myndi rétta þessum mönnum hjálparhönd ef ég gæti til að losna undan þjáningum sínum. En rétta leiðin til þess er ekki meðvirkni með hegðuninni, heldur fordæming. Þeim finnst etv. erfitt að sjá það á þeim stað sem þeir eru nú að besta hjálpin er að fordæma hegðunina.

Ég fordæmi ekki mennina. Hegðun getur verið góð eða slæm. En fólk er í hjarta sínu oftast gott. Ég vona að menn sjái þetta ekki sem endalok á sinni sögu, þó svo að þetta verði líklega endalokin á pólitíska ferli sumra. Ég vona að menn líti á þetta sem upphafið á betri tímum og nýju tækifæri. Upphafið á nýju lífi án áfengis. Sumir þessara stráka eru afburðar klárir einstaklingar og gætu áorkað svo miklu meiru ef þeir væru ekki með Bakkus í eftirdragi. Það er þungur baggi að draga í gegnum lífið. Líka fyrir þá sem hafa marga góða mannkosti. Það er mín einlæga von að þessir menn komist undan því svartnætti sem nú hylur þá og sjái að nýjar dyr opnast.

Meðvirkni og þögult samþykki

Ég er ekki viss um að allir sem sátu við Klausturborðið eigi við alveg sérstakan áfengisvanda að stríða. Það geta menn sjálfsagt best metið sjálfir. En við hina sem sátu þarna vil ég segja að það felst ákveðið samþykki í því að sitja þegjandi hjá þar sem menn stunda orðaníð. Það getur verið auðvelt að detta í meðvirknigírinn þegar maður situr með vini sínum sem kann sér ekki hóf í drykkju eða skapi. Það er auðveldara að horfa fram hjá hegðun sem maður myndi ekki horfa fram hjá ef það væri einhver ókunnugur. Sérlega ef menn eru búnir að stunda slíkt samsæti í einhvern tíma, þá verða menn smám saman samdauna þessu framferði. Hegðunin ágerist svo með tímanum þegar traustið eykst milli aðila. Samþykkið sem felst í þögninni eða jafnvel einstaka viðhlátri fer að virka sem hvatning um að ganga lengra. Þetta mynstur slæmrar hegðunar og samþykkis vindur upp á sig. Þetta gæti jafnvel orðið að einhverskonar keppni í að ganga lengra og vera með hættulegri brandara og grín heldur en samkeppnisaðilar, ef einhverjir samkeppnisaðilar í dólgslegri hegðun eru í samkundunni.

Viðhlæjendur og vinir

Ábyrgð viðhlæjenda er að þeir eiga að segja eitthvað. Ef ekki strax, þá kannski daginn eftir. Ábyrgð þeirra er líka að mæta ekki í þessi samsæti vitandi að þar muni lausmæltar tungur fara hamförum. Svona hegðun er eitruð fyrir þá sem á það hlusta. Það er etv. fyndið og spennandi á stundum að tala óvarlega. Svo er hlátur oft eðlileg varnarviðbrögð sumra við óvæntum uppákomum, svo sem þegar einhver segir eitthvað óvarlegt og óvænt. Þó menn hlæji stundum þegar umræða er komin úr böndunum þá er það oft innantómur hlátur sem skilur eftir sig vonda tilfinningu og sendir út röng skilaboð um samþykki. Til lengdar er þetta eitrað andrúmsloft sem skaðar alla sem taka þátt í því. Menn eiga að hafa kjark til að segja nei við slíkum aðstæðum. Vinir segja vinum líka hvenær þeir eru að haga sér eins og hálfvitar. Vinur er sá er vamms segir.

Framhaldið og flokkurinn

Ég vona innilega að þeir félagar sem höfðu sig mest í frami á Klausturbarnum segi af sér þingmennsku og leiti á önnur mið. Ég óska þeim alls hins besta við það. Viðhlæjendur á barnum mættu líka íhuga sína stöðu vandlega. Taka sér etv. leyfi í bili til að horfa inn á við. Kannski er þeim nóg að láta áfengið eiga sig í framtíðinni svo þeim verði ekki á sá dómgreindarskortur að sitja við slíkar samkomur aftur í framtíðinni.

Miðflokkurinn er stærri en þessi krísa. Miðflokkurinn og það hugsjónarfólk sem þar starfar ætti ekki að þurfa að hætta sínu samstarfi þó að forysta flokksins hafi misstigið sig hrapalega. Ég vona að þau stígi til hliðar, sum tímabundið, en önnur líklega varanlega. Tækifærin í hverri krísu eru að læra af reynslunni. Það tækifæri má aldrei glatast.

Mathöll „með dassi af hvítvíni“

Umræða fór fram á Borgarstjórnarfundi í síðustu viku um Hlemm Mathöll. En það er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar sem bætist við langan lista af allt að því glæpsamlegu klúðri undanfarinna ára. Borgarfulltrúi Miðflokksins flutti tillögu fyrir borgarstjórn að gerð yrði óháð utanaðkomandi rannsókn á blússandi framúrkeyrslu á verkefninu. En það er nú orðið þrefalt dýrara en til stóð í upphafi. Margt áhugavert kom fram í þessum umræðum og er framúrkeyrslan á verkefninu kannski ekki stærsta hneykslið.

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar upplýsti á fundinum að leiguverð borgarinnar á Hlemmi Mathöll veri 14,5 milljónir á ári. En það mun vera 1/3 af markaðsvirði á atvinnuhúsnæði þarna í kring. Hjálmari Sveinssyni þykir þetta hins vegar ‘ekki gefins’ eins og hann orðar það.

Dagur B. Eggertsson ritar undir leigusamning vegna Hlemms Mathallar áður en framkvæmdir hófust.

Fram kom í umræðum að veitingamenn í Hlemmi Mathöll njóti ekki þessa lága leiguverðs, heldur er einn stór milliliður, Hlemmur Mathöll ehf. sem leigir áfram húsnæðið til allra hinna og tekur væntanlega sinn hagnað af því. Maður gæti ímyndað sér að hið áframselda leiguverð sé nálægt markaðsvirði. Leigusamningurinn gildir til 10 ára. Þarna er borgin búin að einkavæða allan hagnaðinn af leigunni.

En borgin situr hins vegar uppi með tapið við að gera upp Mathöllina. Eftir að leigusamningur var gerður greiddi borgin yfir 200 milljónir í viðgerðir, án þess að uppfæra leiguverðið til samræmis.

Hvað gæti fengið borgarstjórnarmeirihlutann til að gera svona slæman samning? Hvaða hvatar eru þar að baki? Nú, meirihlutinn sem stjórnar borginni “elskar Hlemm” og eru ánægð með að ákveðið var að fara í allan umframkostnaðinn, því þetta sé svo „skemmtilegt“ og “með dassi af hvítvíni”, eins og Þórdís Lóa, borgarfulltrúi Viðreisnar, komst að orði.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, upplýsti svo í löngu erindi sínu um opinberar umframkeyrslur að oft séu verkefni metin of lágt til að auka líkur á að farið verði af stað í verkefnið. Það verður að segjast eins og er að þetta eru mest sláandi upplýsingarnar í þessari umræðu um Braggann og Hlemm Mathöll. Getur verið og er Skúli Helgason að ýja að því, að það hafi verið ákveðið fyrir fram að gera kostnaðaráætlun of lága, skrifa undir leigusamninga á forsendum þessa vanmetinna kostnaðaráætlana og síðan smyrja restinni af verkefninu á reikning borgarbúa? Þannig að einkaaðilar sem sömdu um leiguna fái húsnæðið leigt á verði sem er ekki í neinu samræmi við kostnaðinn á húsnæðinu? Þetta virðist í fljótu bragði ekki svo fjarri sanni, því Hjálmar Sveinsson upplýsti það í umræðum um Mathöllina að Borgarráð „vissi það mjög fljótlega að upphafleg kostnaðaráætlun myndi ekki standast og það yrði talsvert mikið dýrara“.

Leigutekjurnar sem borgin fær ná hvergi nærri að dekka allan kostnaðinn við endurgerð þessara húsa. Peningarnir voru teknir að láni, bæði í Braggaverkefninu og fyrir Mathöllina. Ef borgin tekur 330 milljónir að láni, þá greiða 14,5 milljóna árlegar leigutekjur ekki nema 4,4% vexti á ársgrundvelli. Algengir vextir á skuldabréfum sem borgin gefur út til að fjármagna taprekstur síðustu ára er 6,72%. Borgin er því að tapa verulega á þessum leigusamningi við Mathöllina. Tapið fyrir borgina er um 7,7 milljónir á ári, bara út af vöxtum á lánum og án þess að taka til greina markaðsvirði hins leigða húsnæðis. En einhver annar er að græða. Spurning hvort Hjálmari Sveinssyni og félögum finnist þetta eins góður díll fyrir borgina og eins há leiga þegar þetta er tekið til greina?

Dagur B. Eggertsson ritar undir leigusamning vegna ‘Braggans’ áður en framkvæmdir hófust við endurgerð.

Raunar eru í gildi reglur hjá borginni varðandi leiguverð á húsnæði borgarinnar sem nær yfir bæði styrki og samstarfssamninga. Ásamt sérstökum ‚reiknireglum um innri leigu‘. En þær reglur virðast þverbrotnar í þessum málum, þar sem borgarstjóri fór af stað með pennann að vopni og gerði samninga við leigutaka fyrir framan blaðaljósmyndara áður en hafist var handa við að gera upp húsnæðið. Í reglum borgarinnar um ‚Meðferð, afgreiðslu og eftirfylgni styrkja, samstarfs- og þjónustusamninga‘ segir:

„Framlög Reykjavíkurborgar sem veitt eru í formi aðstöðu og/eða húsnæðis skulu metin skv. reiknireglum borgarinnar um innri leigu og gerð grein fyrir þeim ásamt öðrum styrkjum á viðkomandi starfsári.“

En eftir því sem ég kemst næst er þar gert ráð fyrir að leiga á ársgrundvelli sé 15% af virði húsnæðis. Þetta er sú regla sem skólar, leikskólar og aðrar stofnanir borgarinnar þurfa að sætta sig við. Þessi tala er væntanlega fengin út til að dekka allan fjármagnskostnað og annan kostnað. Væntanlega þannig að borgin komi hreinlega út á sléttu og sé ekki að græða á að leigja eigin stofnunum húsnæði.

Eitt fyrsta embættisverk Þórdísar Lóu í borgarstjórn var að bjóða vinkonum sínum í Félagi Kvenna í Atvinurekstri til veislu í Höfða. En veislan mun hafa kostað borgarbúa nærri 350.000 krónur.

En það virðist ekki sömu reglur gilda þegar verkefnið er eitthvað svona „skemmtilegt“ og með„dassi af hvítvíni“. Miðað við 15% regluna þá er borgin að borga með sér 35 milljónir á ári með þessum 14,5 milljóna leigusamningi sem Hjálmar taldi hreint ekki gefins. Ef þetta á að vera skemmtilegt, þá er mér ekki skemmt. Fyrir hvern er svo þessi Mathöll sem við tökum öll þátt í að greiða? Auðvitað hafa ekki allir efni á að éta fyrir þúsundir króna með „dassi af hvítvíni“ og munu aldrei stíga fæti þarna inn, eins og Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks Fólksins bendir á. Þessi Mathöll er einhver versta gerð af stéttarskiptingu sem til er. Niðurgreidd af almenningi, en fyrir efnameiri og túrista. En það er kannski það sem Viðreisn og borgarmeirihlutinn stendur einmitt fyrir. Það er allskonar skemmtilegt fyrir efnameiri, meðan grunnþjónustan er svelt. Niðurgreiðslan á hvítvíninu hennar Lóu er fjármögnuð með lánum. Skuldadagarnir munu koma síðar í formi skertrar grunnþjónustu.

Hér má líta myndband með því áhugaverðasta sem fram kom í umræðum í borgarstjórn um málið:

https://www.facebook.com/vidarfreyr/videos/10156931033773593/?comment_id=10156931059043593&notif_id=1540380042459246&notif_t=feed_comment

Grein þessi birtist fyrst í Kjarnanum 25. október 2018

„Borgarlína eða dauði“ – Falskar sviðsmyndir (myndband)

Mikið hefur verið rætt um samgöngumál að undanförnu. Þeir sem berjast fyrir borgarlínu hafa keppst við að segja að það sé engin önnur leið fær til að byggja upp borgina heldur en að fara í dýr almenningssamgangnakerfi og að þétta byggð eins og mögulegt sé. Þessi leið er þegar farin að kosta þjóðfélagið milljarða. Sögulega hægt hefur gengið að fullgera íbúðir í borginni og íbúðaskortur er einnig orðinn sögulega mikill um allt land. Þá hefur einnig gríðarlegur kostnaður lagst á samfélagið í formi umferðartafa og umferðarslysa sem hefði verið hægt að fyrirbyggja með því að fara að ráðleggingum Vegagerðarinnar um uppbyggingu og úrbætur á vegakerfinu. En hefur verið hundsað til þess að freista þess að breyta ferðavenjum fólks. Þá stendur einnig til að við eyðum ævintýralegri upphæð í nýtt samgöngukerfi: borgarlínu. Þrátt fyrir að enginn viti hvaðan þeir peningar eigi að koma, slíkur er kostnaðurinn.

Þeir sem aðhyllast borgarlínu og þéttingu byggðar, hér eftir: ‘þéttingarsinnar’, hafa farið mikinn að undanförnu og málað upp svarta mynd af framtíð skipulags- og umferðarmála í borginni. Eftirfarandi er að mínu mati sanngjörn túlkun á því sem þeir virðast trúa og hafa haldið fram bæði í ræðum og riti:

Málstaður þéttingarsinna:

 • Dýrasta leiðin áfram sé að fara ekki í Borgarlínu
 • Versta leiðin áfram sé að fara ekki í Borgarlínu
 • Það sé ekki hægt að byggja sig frá umferðarteppum með uppbyggingu vegakerfisins

Þá er gjarnan vísað til skýrslu sem gerð var fyrir Samtök Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu (SSH), þar sem dregnar voru upp þrjár “sviðsmyndir” af því hvernig borgin gæti litið út árið 2040 í hugum þéttingarsinna. En það eru fjölmörg vandamál við þennan sviðsmyndasamanburð og þar með þá sýn sem þéttingarsinnar eru að reyna að sannfæra okkur um að sé einhverskonar algildur sannleikur. Þannig að ég gerði glærukynningu sem fer yfir það helsta..

Vandamálin sem ég bendi á í kynninguni eru eftirfarandi:

 1. Möguleikarnir á sviðsmyndum fyrir framtíðina eru fleiri en 3. Varðandi flesta liði sem eru bornir saman er eingöngu notast við afstæðan samanburð milli þessara takmörkuðu sviðsmynda. Sem eru umdeilanlega raunsannar túlkanir á helstu stefnum í samgöngu og skipulagsmálum.
 2. Skýrsluhöfundum er ætlað að réttlæta fyrirframgefna niðurstöðu: að umhverfisvænir samgöngumátar séu æskilegasta leiðin áfram. Þar með er kosti A strax stillt upp sem “óæskilega” kostinum og öll greining í framhaldinu gengur út á að láta þann kost líta sem verst út í samanburði við “æskilegu” kostina.
 3. Hvergi í skýrslunni er talað um tímasparnaðinn í því að fara um akandi. Né þann samfélagslega sparnað eða auknu lífsgæði sem felast í að stytta ferðatíma sinn með því að kjósa bíl umfram aðra samgöngumáta.
 4. Byggðamörk sviðsmyndanna eru illa skilgreind. Það kemur hvergi fram hvar á að byggja innan þeirra í Sviðsmyndum B og C. Það virðist nú þegar búið að byggja nokkur þeirra hverfa sem talin eru upp í Sviðsmynd A. Vandséð er hvernig stækkanir á hverfum sem fyrir eru valdi stórvægilegum ferðavenjubreytingum.
 5. Ekkert í þessum skýrslum sannar samhengi milli þéttari byggðar og ferðavenja fólks, einkum minni bílnotkunar. Engar rannsóknir er vísað í varðandi hversu mikil tengslin eru (ef einhver). Þetta virðist allt úr lausu lofti gripið.
 6. Borgirnar sem notaðar eru til viðmiðunar sýna enga fylgni milli þéttari byggðar og minni bílnotkunar. Skýrslan lætur í veðri vaka að þéttari byggð sé forsenda þess að hægt sé að nota umhverfisvænni samgöngur. Engin gögn styðja þá ályktun. Þvert í móti.
 7. Skýrslan gerir ráð fyrir að gamli miðbærinn verði áfram hringamiðja borgarinnar. Engin tilraun er gerð til að skoða hvaða áhrif það gæti haft að byggja upp ný atvinnusvæði og hvernig það myndi deila umferðarálaginu. Mætti þá nefna að byggja Þjóðarsjúkrahús á nýjum stað.
 8. Vegaáætlun frá 2007 vísar til fjölda annara vegaframkvæmda og mislægra gatnamóta sem ekki eru hafðar með í Sviðsmynd A þótt talað sé um “allar framkvæmdir”. Þannig að það stenst ekki að nota þá sviðsmynd til að réttlæta að ekki sé hægt að leysa umferðarvandann með “öllum” gatnaframkvæmdum eða að allar leiðir hafi verið skoðaðar. Auðvitað er líka hægt að hugsa sér mun fleiri og jafnvel hagkvæmari vegaframkvæmdir en voru á kortunum árið 2007.
 9. Skýrslan gerir ráð fyrir mikilli fólksfjölgun yfir langt tímabil á alþjóðlegan mælikvarða. Á sama tíma og stefnir í fólksfækkun í Evrópu. Skýrslan setur fram að fólki muni fjölga eins næstu 25 árin eins og s.l. 25 ár, þrátt fyrir að visa í gögn sem segja allt eins líklegt að það verði mun minni fjölgun.
 10. Hvergi er lagt mat á hver áhrif meiri þéttingar gætu orðið. En svo virðist vera að meiri þétting byggðar í Reykjavík valdi meiri úthverfavæðingu og flótta frá borginni yfir á landsbyggðirnar.
 11. Umferðarspáin gerir ráð fyrir íbúafjölgun erlendis frá sem fyrirséð er að munu ekki geta eignast húsnæði. Það þurfa að gerast kraftaverk í íbúðauppbyggingu áður en þessi mannfjöldaspá og þar með umferðarspá er orðin raunhæf.
 12. Gert er ráð fyrir að fjárfesting í göngu og hjólreiðastígum séu gagnslausar í “vondu” sviðsmyndinni. En samt verði farið í fjárfestinguna. Ef kostnaðarsamanburður á að vera sanngjarn, á að draga þennan kostnað frá í sviðsmynd A.
 13. Meira en helmingurinn af ætluðum árangri í “óska” sviðsmyndunum báðum á að koma með sömu fjárfestingu í hjólreiða og göngustígum sem bæta sviðsmynd A ekki neitt
 14. Ef aukin þétting á að fá fleiri til að ganga og hjóla, þá ætti sú aukning ekki að stoppa við 85% þéttingu og restin fari að taka strætó, heldur ættu fleiri að ganga og hjóla við 100% þéttingu en 85% þéttingu.
 15. Ekki er gert ráð fyrir neinni fjárfestingu í almenningssamgöngur í 25 ár í þessum samanburði. Gert er ráð fyrir að engar tilraunir verði gerðar til að auka strætónotkun. Þetta verði því “allt eða ekkert” þegar kemur að almenningssamgöngum. En í raunveruleikanum yrði alltaf farinn millivegur.

(já, óvart fengu tveir liðir númerið 11 við gerð myndbandsins)

Endilega gefið ykkur tíma til að horfa á allt myndbandið. Ég tel að það sé í hið minnsta gagnlegt til að færa umræðuna áfram. Og endilega deila þessu líka. Set hérna youtube link með https://youtu.be/d5_eegJiyHs, fyrir þá sem vilja heldur deila því þannig en af facebook.

Góðar stundir!

Bestun ljósa sparar milljarða

31190031_10156463119723593_9022441518148878336_o

Við hjá Miðfloknum höfum bent á nú um nokkurt skeið að það þarf að stilla umferðarljós betur þannig að þau vinni saman sem heild. Árið 2006 var fjárfest í flottri ljósastýringartölvu frá Siemens: Sitraffic Central, sem átti að samtengja allar ljósastýringar á svæðinu. En það voru aðeins nokkur umferðarljós tengd við þessa tölvu og aldrei klárað að stilla kerfið þannig að það skilaði nokkrum árangri.

Samgöngumál borgarinnar hafa verið vanrækt á síðustu árum með vítaverðum hætti. Allt sem teljast mætti einkabílnum til tekna hefur verið hunsað eða markvisst ýtt til hliðar. Borgarstjórn gerði árið 2012 samning við Vegagerðina um að slá stærri framkvæmdum á frest í 10 ár, svo sem Sundabraut og tvöfaldunum á Reykjanesbraut. Svo hefur viðhald gatna einnig verið vanrækt. Holur í malbiki hafa valdið gríðarlegu tjóni. En minna hefur verið talað um að umferðarljósastýring hefur verið vanrækt. Þar til nýlega að frétt birtist á RÚV þar sem Hrafnkell Proppé, sem fer fyrir stýrihóp um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, lýsir þeirri skoðun að það vanti að stilla ljósin.

Það er ágætt að Samtök Sveitafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu séu búin að taka upp stefnu Miðflokksins í þessu máli. Við höfum talað fyrir því um nokkurt skeið að það þurfi að stilla ljósin og það strax. Langtíma markmið er vitanlega samt að losna við þessi umferðarljós. En það gæti tekið áratugi. Þangað til þarf að klára að tengja öll 131 ljósagatnamótin á höfuðborgarsvæðinu, þar af 116 í Reykjavík, við rándýra og fína kerfið sem var keypt og leggja vinnuna í að forrita kerfið þanni að það sé að gera eitthvert gagn. Forritun kerfisins er í raun mikilvægast í þess öllu, að kerfið sé still rétt og reglulega. Því annars gerir það ekki neitt eða jafnvel illt verra.

Dæmi um áratugagamlar stillingar í borginni

Í skýrslu sem Vegegerðin lét gera um málið kom fram að það séu mörg dæmi um áratugagamlar stillingar á ljósum á höfuðborgarsvæðinu. Þar sé sem sagt umferðinni stýrt eins og hún var fyrir áratugum síðan, en ekki eins og hún er í dag. Í skýrslu Vegagerðarinnar segir líka að það þurfi að uppfæra stillingar á 3-5 ára fresti og oftar fyrir hverfi sem eru í örri þróun. Þegar klárað var að tengja fyrsta áfanga af umferðarljósum við Siemens kerfið var sett inn samskonar forritun á ljósin eins og var á þeim fyrir. Þannig er í raun sama stillingin enn á þessum ljósum. Því aldrei var farið í bestun á stillingum, mögulega því að það kom efnahagshrun fljótlega eftir þetta og áhuginn á verkefninu virðist hafa fjarað út.

Rauðu punktarnir sýna gatnamótin sem búið var að tengja tölvunni þegar verkefnið var yfirgefið. Þau héldu samt gömlu stillingunum. Bláu punktarnir sýna önnur gatnamót sem til stóð að tengja kerfinu.

Umferðarljós hafa gríðarlega tefjandi áhrif

Alveg frá því að umferðarljós voru fyrst tekin í notkun hafa verið gerðar rannsóknir á því hvernig þau geta tafið umferð. Umferðarljós reyna á viðbragsðtíma ökumanna. En áhrif þess verða mun minni ef græna ljósið er látið loga lengur. Þetta hafa rannsóknir sýnt. Þess vegna getur það aukið skilvirkni gatnamóta umtalsvert að lengja svokallaðann „lotutíma“ á álagstímum. Þanni má segja að röðin sem er að bíða eftir grænu nái að komast betur á skrið áður en hún þarf að stoppa aftur.

Það eru fyrstu bílarnir í röðinni sem valda mestum tafatíma. Þetta sést í rannsóknum. Fyrsti bíll tekur um 4 sekúndur að komast inn á gatnamótin, en tíminn jafnast síðann út þegar um 5-6 bíll er kominn inn á gatnamótin og verður þá minnst um 2,1 sekúnda. Út frá öllum þessum rannsóknum er auðvelt að áætla hversu margir bílar komast yfir á grænu ljósi eftir því hvað það logar lengi.

Hreinsunartími tefur líka

En það er ekki aðeins slakur viðbragðstími mannfólksins sem tefur umferðina á ljósastýrðum gatnamótum. Það er líka sú staðreynd að rauð og gul ljós þurfa að loga í visst langan tíma til að hægt sé að hreinsa gatnamótin fyrir umferð úr annari átt. Sá tími er víða erlendis hafður um 6 sekúndur. En algengt er að á íslandi sé það upp í 9 sekúndur. Það er þá tími sem enginn ætti að vera að nota gatnamótin. Tími sem má segja að fari til spillis. Ég gerði mælingu á nokkrum gatnamótum og birti hér raunverulegar tölur frá gatnamótum sem við öll erum eflaust að hugsa til:

Það sem vekur strax athygli er hver rauður/gulur tími er mikill. Það er 7-8 sekúndur milli þess að það kemur gult öðru megin, þar til er komið grænt á hinum staðnum. Eflaust er þetta vegna þess að fólk er mikið að fara yfir á gulu og það þarf því aukinn tíma til að hreinsa gatnamótin. En sú staðreynd að langur hreinsunartími sé gefinn, mætti ætla að auki einmitt líkurnar á að menn fari yfir á gulu. Því bílstjórar skynji að hægt sé að komast upp með það.

Hinsvegar sýna þessar tölur að það er um þriðjung af tímanum sem ENGINN er að nota gatnamótin. Þetta er hægt að bæta með því að lengja Lotutímann, jafnvel þótt hreinsunartíminn yrði óbreyttur:

Þetta litla dæmi er aðeins til að sýna hvernig stilling á ljósum getur haft gríðarleg áhrif á flæði umferðar. Vitanlega þarf að fá sérfræðinga í þessum málum til að framkvæma stillinguna.

Aukið flæði með betri stillingum
En ef við notum þetta dæmi áfram, þá eru þarna auka 7 mínútur sem bifreiðar hafa til að komast yfir gatnamótin. Það eru ríflega 800 fleiri bílar yfir klukkutímann, ef við gerum ráð fyrir 2 akreinum úr hverri átt (4 akreinar virkar á hverjum tíma). Þá er ekki búið að reikna inn allan viðbragðtímann sem vinnst til baka. En samkvæmt mínum útreikningum, sem miða við rannsókn á viðbragðstíma má gera ráð fyrir að það sparist um 630 sekúndur á klukkustund í viðbragsðtíma vegna þess að ljósin verða ekki jafn oft rauð á klukkustund. Fer úr því að vera 347 rauð ljós á klukkustund niður í 299 rauð ljós á klukkustund. Bílaraðirnar þurfa því ekki að taka jafn oft af stað. Það eru auka 300 bílar sem komast yfir vegna minni tíma sem tapast í viðbragðið. Fljótlegir útreikningar sýna því að þessi einfalda ráðstöfun, að lengja lotutímann um 50%, gæti hleypt 1100 bílum meira yfir gatnamótin á álagstímum.

Af hverju er þetta ekki alltaf svona?

Það er engin ein stilling á ljósum sem er góð allan sólarhringinn. Lengri lotutími er hagstæður þegar það er nóg af bílum að bíða eftir að komast yfir úr öllum áttum. Það er líka hægt að lengja græna tímann úr aðeins einni átt, ef þannig ber undir. En á öðrum tímum sólarhrings þá myndi lengri lotutími að líkindum bara tefja umferð, því það er etv. enginn að bíða eftir að komast yfir úr hinni áttinni þegar þú lendir á rauðu ljósi. Flest ljósastýrð gatnamót eru enda með 4 stillingar sem eru mismunandi yfir daginn. Þetta þarf allt að taka til greina þegar ljósin eru stillt. Tölvukerfið fína frá Siemens er líka hannað til að finna út hvenær er best að skipta á milli þessara stillinga og er hægt að láta það ákvarðast af teljurum sem fylgjast með umferðinni.

Ábati ljósastillingar með því mesta sem þekkist

Rannsókn á vegum Federal Highway Administration í Bandaríkjunum hefur metið ábata af ljósastýrikerfim vera allt að 40 á móti 1. Það er að hver króna sem er sett í þennan málaflokk geti skilað sér fjörtíufallt til baka í formi tímasparnaðar og eldsneytissparnaðar. Þar er einnig sagt að slíkar fjárfestingar séu yfirleitt búnar að skila sér á innan við ári.

Í Oslo og Eindhoven var gerð könnun á ferðatíma fyrir og eftir slíkar stillingar og var munurinn 15% í Oslo og 17% í Eindhoven.

Ég hef hér útskýrt hvernig þetta virkar á einfaldaðan máta og bent á að reynsla og rannsóknir sýni hagkvæmnina í þessu og ábata þessara aðgerða. En nú er spurnign hvort borgarmeirihluti vilji nokkuð gera til að greiða umferð akandi. Þeir hafa ekki sýnt neina tilburði í þá veru á þeim 12 árum sem Dagur B. Hefur verið við ýmist borgarstjóri eða í meirihluta. Það ætti vitanlega að setja sem langtímamarkmið að fækka þessum ljósastýringum verulega. En þangað til þá er gríðarlega ábatasamt að láta stilla ljósin og klára tengingu við hið miðlæga kerfi sem gerir stillingu og samræmingu enn auðveldari.

Tugmilljarða kostnaður þéttingarstefnu

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum: sjá hér

Gatnamótin Reykjanesbraut-Bústaðavegur eru í þriðja sæti á lista yfir hættulegustu gatnamót landsins. Þar hafa orðið 54 slys á fólki á s.l. 10 árum. Samanlagt 90 manns slasaðir. Við þetta bætast hátt í 300 óhappa, þar sem aðeins bifreiðar verða fyrir tjóni. Sem gerir þessi gatnamót jafnframt að einum þeim kostnaðarsömustu, þegar bæði slys og óhöpp eru talin saman.

Glæra frá Vegagerðinni

Ekki nóg með það, þá tefja þessi gatnamót umferð gríðarlega mikið. Ekki síst í síðdegistraffíkinni. Þá má sjá hvernig röðin frá þessum gatnamótum nær alveg aftur að Sundagörðum um Sæbrautina og upp á Grensásveg gegnum beygjuakrein á mótum Reykjanesbrautar-Vesturlandsveg. Þessar raðir af bílum valda fjölda aftanákeyrsla sem sjást glögglega á slysakorti Samgöngustofu.

Hér sjást aftanákeyrslur á Miklubraut milli Réttarholtsvegar og Reykjanesbrautar. Bláir punktar eru óhöpp án meiðsla. Grænir punktar eru slys á fólki.

Á myndinni hér má sjá fjöldann allan af slysum og óhöppum sem flest gerast í síðdegisumferðinni, þegar röð myndast til að beygja til hægri inn á Reykjanesbraut niður beygju-rampinn. Sú röð endar þegar umferðin kemst loksins yfir ljósin við Reykjanesbraut-Bústaðaveg.

Mislæg gatnamót borga sig upp á stuttum tíma

Sé lagður saman kostnaður við slys og óhöpp við þessi gatnamót ásamt þeim aftanákeyrslum sem verða þar sem ekið er á bílaröðina sem myndast, þá nemur kostnaðurinn af slysum meira en 3,5 milljarða króna á 10 ára tímabili. Það eru 350 milljónir á ári.

Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar er meðaltalstöf 24 sekúndur á hverja bifreið við þessi gatnamót, það eru 74.000 bifreiðar á sólarhring og klukkustund í akstri er talin kosta 2.480 kr (eldsneyti og tími ökumanns). Þannig má reikna að árlegur kostnaður vegna tafa er um 448 milljónir.

Samanlagður samfélagslegur kostnaður við þessi ljósastýrðu gatnamót er því ekki minni en 798 milljónir á ári. Það hafa verið byggð mislæg gatnamót fyrir innan við milljarð á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Þannig mætti vel ímynda sér að þessi aðgerð borgi sig á einu kjörtímabili.

Ein af hugmyndum Vegagerðarinnar. Þarna er ekki gert ráð fyrir vinstri-beygju frá Bústaðavegi inn á Sæbraut.

Kastast í kekki milli borgar og Vegagerðar

Vegagerðin er búin að benda á vandann við þessi gatnamót síðan 2006, eða lengur. Í nýlegri greinagerð er niðurstaðan þessi:

“Það er mikið stílbrot í kerfinu í dag að gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar skuli ekki vera mislæg. Tafir síðdegis eru mjög miklar og hætta á óhöppum og slysum því mun meiri en ella.”

Vegagerðin gagnrýnir Reykjavíkurborg í þessu máli, líkt og þeir hafa gert í öðrum málum, t.d. hvað varðar Sundabraut. Vegagerðin vill að stofnbrautir séu hafðar með mislægum gatnamótum. En borgin hefur ekki áhuga á því.

Tölvumynd Vegagerðarinnar af annari lausn þeirra

Mín hugmynd að lausn með lágmarks raski á grænu svæðunum. Myndin er tölvuteikning af mislægum T-gatnamótum sett yfir Google loftmynd af svæðinu.

Stofnæðar án ljósastýringa

Vegagerðin skilgreinir stofnæðar höfuðborgarsvæðisins sem eftirfarandi:

 • Reykjanesbraut allt  frá Keflavíkurflugvelli að Vesturlandsvegi við Elliðaárósa og áfram að fyrirhugaðri
 • Sundabraut og síðan eftir Sundabraut norður á Kjalarnes og allt að Hvalfjarðargöngum.
 • Hafnarfjarðarvegur frá vegamótum í Engidal (Álftanesveg) norður að Sæbraut í Reykjavík.
 • Vesturlandsvegur og Miklabraut frá Grensásvegi að miðbæ Mosfellsbæjar.
 • Suðurlandsvegur frá Vesturlandsvegi austur fyrir Rauðavatn.
 • Breiðholtsbraut frá fyrirhuguðum vegamótum við Arnarnesveg að Suðurlandsvegi við Rauðavatn.

Allt eru þetta þjóðvegir í þéttbýli, sem tengja sveitarfélögin og landið saman. Reykjavíkurborg hefur markvisst unnið gegn áformum um að bæta samgöngur um þessar stofnæðar. Með samningi árið 2012 voru fjölmargar úrbætur slegnar út af borðinu eða frestað í hið minnsta 10 ár. Þar á meðal fjölda mislægra gatnamóta við þjóðvegi kringum höfuðborgarsvæðið. Það er varlegt að áætla að samfélagslegur kostnaður við þennan viðsnúning hlaupi á tugum milljarða í slysum og töfum. Þetta skrifast á þéttingarstefnu borgarmeirihlutans.

Samgöngubætur sem hætt var við eða frestað að frumkvæði Reykjavíkurborgar árið 2012

Nútíma Hollensk hringtorg – Séð frá sjónarhorni hjólreiðamannsins

202ee5e3a1a9a25c0cb8edf208a56538

Hringtorg eru mikið öruggari og skilvirkari kostur fyrir gatnamót í þéttbýli sem og dreifbýli. Ekki síst fyrir hjólandi og gangandi. Þetta hafa Hollendingar reynslu af. Og nú eru þeir búnir að finna upp nýja tegund af tveggja-akreina hringtorgum, sem eru nærri jafn örugg eins og þessi með einni akrein.

Á Íslandi er reynslan misjöfn af hringtorgum. Því hér eru bæði gamaldags hringtorg í bland við nútímaleg. Þessi gömlu, sérstaklega þau sem eru tveggja akreina, er hægt að bæta með því að horfa til reynslu Hollendinga.

Hringtorg fækka slysum á fólki um 75% og banaslysum um 90%. Að auki fækkar árekstrum um 37%. Alvarleg slys, háhraða slys, nánast þurrkast út. Og flæði gegnum hringtorg er talið vera kringum 40% meira en á samskonar gatnamótum. Þetta er marg rannsakað. Enda setja Holleningar nú niður hringtorg eins og þeir eigi lífið að leysa. Í Ameríku eru menn líka farnir að kveikja á perunni og eru mörg ríki farin að koma með sínar eigin hönnunarleiðbeiningar, sem taka líka mið af Hollenskri reynslu.

 

 

 


Myndbandið er fengið að láni með góðfúslegu leyfi frá: Bicycle Dutch. EN maður sá er hjólreiðamaður í Hollandi, eins og nafnið gefur til kynna. Hér er hans ágæta heimasíða: https://bicycledutch.wordpress.com/
Hér má líta upprunalega myndbandið (á ensku): https://youtu.be/41XBzAOmmIU

Gatnrýni: Biðin við Kringlumýrarbraut

beygjurein.png

Hér þarf maður að bíða í röð í 10-15 mínútur til að beygja til hægri inn á Miklubraut til vesturs. Það er vegna þess að beygju-frárein þarna er c.a. 2ja metra löng. Það er nóg pláss til að hafa hana 100metra langa. Það myndi greiða fyrir umferð og spara mörgum biðina sem þurfa að komast vestur í bæ á álagstímum. Enda sjást líka merki þess að menn eru búnir að bíða þarna og orðnir mjög óþolinmóðir í vegkanntinum fyrir framan fráreinina. En er einhver vilji til að breyta þessu?

beygjurein2.png

Umferð tafin vísvitandi

Hér er eitt dæmið um áhugaleysi til að greiða fyrir akandi umferð hjá borgaryfirvöldum. Það sjá allir sem keyra þarna framhjá hve lítið mál væri að laga þetta. Það sjá væntanlega líka þeir sem bera ábyrgð á því að laga þetta.

Það eru nánast tvær strætisvagna-breiddir milli biðskýlisins og götunnar, þar sem vagninn stöðvar í dag. Ef það skyldi ekki duga til að útbúa útskot fyrir vagninn fyrir framan biðskýlið, þá er nægt pláss fyrir aftan skýlið ef það þarf að færa.

Þessi strætóstoppistöð tefur morgunumferðina úr Vesturbænum og veldur slysahættu þegar bifreiðar sveigja í ofboði yfir á vinstri akrein, líkt og bíllinn sem bleika örin bendir á er að gera á myndinni. Ég keyri þessa leið á hverjum degi til vinnu og raunar reyni ég bara að passa mig að lenda ekki á hægri akrein þegar ég kem út af hringtorginu.

Það eru smámunir sem kostar að laga þetta og það sjá allir hve vitlaust þetta er sem hafa keyrt þarna hjá. Raunar er það undirstrikað hver óheppilegt er að bifreiðast stöðvi þarna með því að það er máluð gul lína á vegbrúnina, sem bannar ökutækjum að stöðva.. nema auðvitað strætó.

Vanamálið er því ekki skortur á fé eða góðri lausn heldur ALGJÖRT áhugaleysi borgaryfirvalda til að gera nokkuð sem greiðir fyrir akandi umferð.