Hringrás félagslegrar útilokunar

Rannsóknir sýna að það er ekkert sem lætur börnum líða verr en að hafa orðið fyrir einelti og útilokun. Jafnvel ofbeldi og vanræksla af hendi fullorðinna sest í annað sætið í rannsókn á vegum Warwick háskóla sem kannaði tengsl sjálfsvígshugsana, kvíða og þunglyndis við erfiðleika í æsku. Þar höfðu 29,7% svarenda lent í einelti en 8,5% höfðu orðið fyrir vanrækslu/misbeitingu.

Samfélagið, umhverfið og jafningjar okkar skipta gríðarlegu máli fyrir sjálfsmyndina. Samfélagið segir okkur að misbeiting barna sé óréttlát og fær sá sem verður fyrir slíku ákveðna svörun frá samfélaginu um að það sé ólíðandi. Þeir sem hinsvegar verða fyrir útilokun frá jafningjum sínum upplifa annað, hjá þeim er stutt í ranghugmyndir um að eitthvað sé að þeim sjálfum. Þessar ranghugmyndir taka menn svo með sér út í lífið.

Brotfall úr námi

Mörg barna sem verða fyrir útilokun flosna upp úr námi og enda í óreglu. Einhver þeirra munu leita á náðir hefðbundinna og óhefðbundinna lækninga. Með óhefðbundnum lækningum er hér átt við bakkus frænda, félagslega einangrun og veruleikaflótta af ýmsu tagi. Þar kemur tölvu- og netfíkn til bjargar einmana sálum.

Hér hefur skólakerfið okkar brugðist. Skólakerfi sem skilar föstu hlutfalli nemenda, ár eftir ár, óhæfu til að takast á við lífið, er óásættanlegt kerfi. Þetta er ekki aðeins réttlætismál gagnvart þeim sem verða fyrir félagslegri útilokun, heldur kostar þetta þjóðfélagið gríðarlegar fjárhæðir. Skýrsla á vegum Samtaka Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu mat sem svo að tapið vegna brotthvarfs nema á framhaldsskólastigi árið 2012 væri í námundan við 52,2 milljarða það árið.

Jaðarsetning er ekki náttúrulögmál

Á grafinu hér að neðan má sjá að staða þessara hópa sem flosna upp úr skólakerfinu hefur versnað að undanförnu. Eftir aldamótin og fram til ársins 2008 voru c.a. þrír grunnskólamenntaðir á móti hverjum einum háskólamenntuðum utan vinnumarkaðar. Nýjustu tölur sýna hinsvegar að þetta hlutfall hefur aukist í fjóra á móti hverjum einum.

atvinnuthattaka

Spádómurinn sem uppfyllir sig sjálfur

Neikvætt viðhorf samfélagsins til þeirra sem ekki uppfylla kröfur þess til menntunar er spádómur sem uppfyllir sig sjálfur. Við búumst við því að þeir sem eru með litla menntun séu minna virði á launamarkaði. Fordómar sem þessir auka líkurnar á að félagsleg staða afkomenda þeirra verði verri en annarra. Fátækt og félagsleg vandamál valda því að þau fá ekki nægjanlega góða menntun og uppeldi, sem aftur ýtir þeim út á jaðarinn á fullorðinsárum. Í miðju þessarar hringrásar er viðhorf okkar til jaðarsettra, sem ýtir á eftir hringekjunni á öllum stigum.

hringras

Ábyrgð menntastofnana

Baráttan við einelti í grunnskólum er nauðsynlegur partur af því að takast á við félagslega útilokun og jaðarsetningu í samfélaginu. Ætla má að einelti í grunnskólum sé meginorsök þess að ungt fólk svipti sig lífi og sé megin orsök þunglyndis og kvíða hjá ungmennum. Ábyrgð menntastofnana er að koma í veg fyrir einelti og félagslega útilokun á skólatíma.

Þeir sem ekki finna sig í hefðbundnum bóknámsgreinum eru einnig líklegir til að þrífast illa í skólakerfinu. Ábyrgð skólakerfisins er þá að bjóða upp á fleiri tækifæri til menntunar fyrir þennan hóp.

Í könnun á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er viðhorf nemenda til verklegs og bóklegs náms í grunnskóla borið saman við brottfall og kom þar fram mikill skortur í framboði verklegra greina. Meira en helmingur þeirra sem líkaði betur verklegt nám útskrifuðust ekki úr neinu námi. Jafnvel þeir sem “geta ekki gert upp á milli” velja á endanum flestir bóklegt nám, að líkindum því þar er meira framboð af námi víða um landið.

afstada

Ábyrgð atvinnulífsins

Atvinnurekendur, yfirmenn og samstarfsmenn bera ábyrgð á að búa til umhverfi sem tekur vel á móti jaðarsettum einstaklingum.

Atvinnulífið mætti taka til skoðunar að slaka á menntunarkröfum og finna aðrar leiðir til að mæla færni. Í mörgum iðngreinum er t.a.m. boðið upp á svokallað “raunfærnimat” þar sem iðnnemar geta fengið reynslu sína metna til eininga í skóla. Slíku “raunfærnimati” væri vel hægt að beita við mannaráðningar í mörgum greinum í stað þess að horft sé á skólaskirteini. Atvinnulífið gæti auk þess, í samstarfi við skólana, einfaldað námsleiðir fyrir margar greinar.

 

Ábyrgð stjórnmálanna

Aðalnámskrá Grunnskóla er í valdi okkar að breyta þannig að hún mæti þörfum þeirra sem ekki finna sig í bóknámi. Eins og sjá má á eftirfarandi mynd er mikið ójafnvægi milli bóklegra og annara greina.

stundaskra

Það er svo sveitarfélaganna að búa öllum börnum öruggt umhverfi þar sem þau verða ekki fyrir útilokun og einelti. Samkvæmt könnun Olweusaráætlunarinnar frá 2015 segjast 5% stúlkna og 4% drengja líða illa eða mjög illa í skóla. Þetta er óásættanleg tala. Við verðum að gera betur. Framtíð þessa hóps er í húfi.

Viðar Freyr Guðmundsson

 

 Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. desember 2017

Ef þér líkar við skrif mín, íhugaðu þá að gerast styrktaraðili.

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s