Á síðasta ári gerðust þau merku tíðindi að íbúðum fjölgaði meira í Mosfellsbæ heldur en í Reykjavík. En borgarstjórnarmeirihluti undir forystu Dags B. Eggertssonar hefur legið undir ámæli fyrir að draga lappirnar með að úthluta lóðum. En borgarstjóri hefur gefið þær skýringar á hve hægt gangi að byggja að það séu ekki nægilega margir byggingarkranar. En kranarnir hljóta þá allir að vera fluttir upp í Mosfellsbæ.
Stuðningsmenn sitjandi borgarstjórnar hafa sumir brugðið á það ráð að kenna hruninu sem varð fyrir 10 árum síðan um þessa stöðnun. En ef við skoðum tölur um uppbyggingu í öðrum sveitarfélögum í kringum landið kemur í ljós að Reykjavík er langt fyrir neðan marga nágranna sína í uppbyggingu og jafnvel langt fyrir neðan fjarskylda ættingja. Þannig að sú söguskoðun að hrunið sé valdur að stöðnun í Reykjavík, hlýtur um leið að þurfa að útskýra hvernig hrunið varði ekki jafn lengi í Mosfellsbæ, Garðabæ, Kópavogi, Hafnarfirði eða í Árborg.